Finndu þína frístund!

Vinsælt í dag

Starf á vegum Reykjavíkurborgar

Frístundamiðstöðvar eru starfræktar í öllum hverfum Reykjavíkur. Frístundamiðstöðvarnar reka frístundaheimili,  félagsmiðstöðvar og frístundaklúbba. Skráning í frístundaheimili og í sumarstarf frístundamiðstöðvanna fer fram á sumar.fristund.is

Hitt húsið er menningar- og upplýsingamiðstöð fyrir ungt fólk. Hitt húsið sérhæfir sig í aðstoð og ráðgjöf svo sem í atvinnumálum ungs fólks, menningu- og listum. Í Hinu Húsinu er einnig starfsemi fyrir fötluð ungmenni.

Í Reykjavík er að finna fjölbreytta afþreyingu fyrir fjölskyldur og má meðal annars nefna sundlaugar, matjurtagarða, frisbígolfvelli, boltagerði, hjólabrettagarða, göngu- og hjólaleiðir, útivistarsvæði og fleira.

Fjölskyldu- og húsdýragarðurinn er opinn alla daga ársins.  Í Nauthólsvík er starfræktur á sumrin siglingaklúbburinn Siglunes fyrir 9-16 ára.

 

Frístundastyrkir

Markmið og tilgangur Frístundastyrkja er að öll börn og unglingar geti tekið þátt í uppbyggilegu frístundastarfi óháð efnahag eða félagslegum aðstæðum. 

Frístundakort í Reykjavík
Styrkurinn er nú 50.000 krónur á barn á ári fyrir hvert barn 6-18 ára með lögheimili í Reykjavík. Ekki er um beingreiðslur til forráðamanna að ræða, heldur hafa þeir rétt til að ráðstafa tilgreindri upphæð í nafni barns síns til niðurgreiðslu á þátttöku- og æfingagjöldum. Um 200 félög á höfuðborgarsvæðinu eiga aðild að Frístundakortinu. Frístundakortinu er ráðstafað í gegn um Rafræna Reykjavík eða í gegn um skráningakerfi félaga. Nánari upplýsingar um Frístundakortið.

Frístundastyrkir í Hafnarfirði
Félag fær greitt fyrir hvern iðkanda á mánuði til lækkunar á þátttökugjaldi eins og hér segir, kr. 1.700 fyrir 6 ára til 12 ára og kr. 2.550 fyrir 13 ára til 16 ára og miðað skal við fæðingarár. Niðurgreiðslur ná eingöngu til tveggja íþrótta- og/eða tómstundagreina í senn. Framkvæmd niðurgreiðslunnar er þannig að forráðamenn fara inn á Mínar síður á vef Hafnarfjarðarbæjar eða heimasíðu viðkomandi félags og staðfesta þátttöku iðkandans hjá viðkomandi félagi/deild rafrænt.

Starf á vegum frjálsra félaga

Fjöldi æskulýðs- og íþróttafélaga á höfuðborgarsvæðinu halda úti viðamiklu starfi fyrir börn, unglinga og fullorðna.

Í öllum hverfum eru íþróttafélög sem bjóða upp á hefðbundnar íþróttagreinar en einnig eru mörg félög sem halda úti starfsemi sem ekki er hverfisbundin eða innan vébanda íþróttahreyfingarinnar.  

Af annarri frístundastarfsemi má nefna skátastarf, tónlistarskóla, dansskóla og starfsemi æskulýðsfélaga og trú- og lífsskoðunarfélaga.