Tónlistarnámskeið á Sönghátíð í Hafnarborg

Hverfi: 
Nágrannasveitarfélög, Hafnarfjörður
Efnisflokkur: 
Sumarnámskeið
Tímabil: 
júlí 2018
Aldur: 
15 ára, 16 ára, 17 ára, 18 ára, 19 ára og eldri

Sönghátíð í Hafnarborg 2017 býður upp á söngnámskeið með mezzósópransöngkonunni Guðrúnu Jóhönnu Ólafsdóttur fyrir áhugafólk um söng. Farið verður í ýmislegt varðandi söngtækni, svo sem líkamsstöðu, öndun, stuðning, sérhljóðamyndun, að syngja hreint, hátt og lágt, veikt og sterkt. Markmið námskeiðsins er að nemendur nái að njóta þess að syngja af enn meira frelsi en áður. Námskeiðið er tilvalið fyrir alla þá sem hafa gaman af því að syngja og vilja ná betra valdi á röddinni. Ekki er nauðsynlegt að hafa lært söng áður, verið í tónlistarskóla eða að kunna að lesa nótur. Aldurslágmark er 15 ár, en það er ekkert aldurshámark.

 

Námskeiðið fer fram í Hafnarborg í Hafnarfirði eftirfarandi daga:

Laugardaginn 1. júlí kl. 15:00-17:00

Sunnudaginn 2. júlí kl. 15:00-17:00

 

Námskeiðsgjald (4 klst.) er 12.000 kr. Það innifelur einn boðsmiða á eina tónleika á Sönghátíð í Hafnarborg.

Athugið að fjöldi þátttakenda er takmarkaður.

Skráning fer fram í gegnum vefgátt Hafnarfjarðar www.fristund.is.

Nánari upplýsingar í s. 585-5790 og í gegnum netfangið hafnarborg@hafnarfjordur.is

Um leiðbeinanda námskeiðsins og listrænan stjórnanda Sönghátíðar í Hafnarborg:

GUÐRÚN JÓHANNA ÓLAFSDÓTTIR mezzósópran hefur komið fram á tónleikum vítt og breitt um Evrópu, í Suður-Ameríku, Bandaríkjunum og Afríku í tónleikasölum svo sem Henry le Boeuf Hall í Bozar í Brussel, Auditorio Nacional de Música og Teatro Real í Madrid, Glinka sal Fílharmóníunnar og Belozelsky-Belozersky höllinni í St. Pétursborg, Coliseo í Buenos Aires og Royal Festival Hall í London. Hún hefur sungið m. a. með Sinfóníuhljómsveit Íslands, Sonor Ensemble, Camerata del Prado, Sinfóníuhljómsveitum La Mancha, Albacete, Sinfóníuhljómsveit Madrídar, St Petersburg State Symphony Orchestra og Philharmonia Orchestra í London.

Guðrún hefur sungið í óperum á Spáni, Bretlandi og Íslandi, hlutverk eins og Öskubusku, Dorabellu, Rosinu, Romeo, Prins Orlowsky, Sesto, Komponist, Dido, Ingibjörgu í Ragnheiði eftir Gunnar Þórðarson og titilhlutverkið í Stígvélaða kettinum eftir Montsalvatge í Konunglega óperuhúsinu í Madríd. Guðrún hefur frumflutt fjölda tónverka eftir íslensk og erlend tónskáld, sem mörg hver hafa verið samin sérstaklega fyrir hana. Hún hefur hlotið ýmis verðlaun í alþjóðlegum söngkeppnum, svo sem Kathleen Ferrier ljóðasöngsverðlaunin í Wigmore Hall í London, The Miriam Licette Scholarship í Konunglega óperuhúsinu Covent Garden, The Schubert Lieder Prize í Guildhall, Madeline Finden Memorial Trust Award í Royal Academy of Music, þriðju verðlaun í Concorso Vocale Internazionale di Musica Sacra í Róm, ljóðasöngsverðlaunin í hinni Alþjóðlegu söngkeppni Zamoraborgar á Spáni og verðlaun sem Besti flytjandi tónlistar eftir Rodrigo í Joaquín Rodrigo keppninni í Madríd. Hún hefur hlotið Starfslaun listamanna í eitt ár í tvígang.

Guðrún stundaði söngnám hjá Rut Magnússon í Tónlistarskólanum í Reykjavík og hjá prófessor Lauru Sarti í Guildhall School of Music and Drama í London, en þar hlaut hún meistaragráðu í söng og lauk óperudeild skólans. Guðrún var listrænn stjórnandi Kammertónleika á Kirkjubæjarklaustri í ellefu ár þar til hún stofnaði Sönghátíð í Hafnarborg, sem hún stjórnar. Söngur hennar hefur verið hljóðritaður á vegum Ríkisútvarpsins, Sjónvarpsins, BBC Radio 3, Spænska ríkisútvarpsins og Spænska ríkissjónvarpsins og var hún einn af söngvurunum sem Sjónvarpið fjallaði um í þáttaröðinni Átta raddir. Guðrún hefur sungið inn á geisladiskana Grieg-Schumann með Víkingi Heiðari Ólafssyni, Apocrypha (sem hlaut Íslensku tónlistarverðlaunin) með Nordic Affect, Iepo Oneipo Heilagur Draumur (Editor´s Choice, Gramophone Magazine) og Kom skapari með Kammerkór Suðurlands, Barn er oss fætt með Sinfóníuhljómsveit Íslands, Sigvaldi Kaldalóns: Ég lít í anda liðna tíð með Jónasi Ingimundarsyni, Tengsl Hjálmar H. Ragnarsson með Kammersveit Reykjavíkur, Mitt er þitt – íslensk og spænsk sönglög, English and Scottish Romantic Songs for Voice and Guitar (EMEC Discos) og Secretos quiero descubrir með Francisco Javier Jáuregui og Grannmetislög og Áskell Másson (Naxos) með Caput. www.gudrunolafsdottir.com

Síðast uppfært: 
Föstudagur, 2. júní 2017 - 8:19