Kramhúsið

Heimilisfang: 
Skólavörðustígur 12
101 Reykjavík
Sími: 
551 5103
Netfang: 
kramhusid@kramhusid.is

Kramhúsið – komið á fertugsaldur og alltaf jafn ferskt!

Í Kramhúsinu hafa ýmiskonar listamenn, héðan og þaðan, fundið farveg fyrir menningu síns heimshluta og náð að kynna hana fyrir Íslendingum og heilla þá með. Enda var stundum sagt að allir útlendingar sem eitthvað kynnu fyrir sér í dansi eða hreyfilist rötuðu fyrr en seinna í Kramhúsið og væru farnir að kenna þar áður en við væri litið. Afró, tangó, samba, salsa, flamenco, magadans og bollywood eru meðal þess sem auðgað hefur íslenskt menningarlíf á þennan hátt. Sýningarhópar á vegum hússins eru og hafa verið algeng sjón þegar Reykjavíkurborg heldur hátíð eins og á Menningarnótt, Vetrarhátið og 17.júní svo eitthvað sé nefnt. Þá hafa ótal dans- og leikhópar notið gestrisni hússins til að æfa og þróa verk sín. Frá upphafi hefur mikil áhersla verið lögð á kennslu í dansi og skapandi greinum fyrir börn og unglinga, enda hafa margir helstu leikarar þjóðarinnar lært sinn grunn og fundið listamannin í sjálfum sér í Kramhúsinu.

Frumkvæði, kraftur og fjölbreytt lista- og menningarstarfsemi hefur einkennt starfið frá upphafi. Listamenn af ólíkum uppruna hafa komið að kennslu  og hefur Kramhúsið verið brautryðjandi í uppbyggingu fjölmenningar og forvarnarstarfs fyrir börn og unglinga.  Í Kramhúsinu eru allir jafnir og þar sameinast í dansi svartir, hvítir, ungir, gamlir, feitir og mjóir, karlar og konur sem trúa á það góða og fallega í fólki.

Þetta gróðurhús við Skólavörðustíginn hefur hýst marga stærstu drauma íslensks listalífs, hlúð að bæði mönnum og menningarfyrirbærum og gefið þeim næði, rými og næringu til að blómstra og dafna. Sumir þessir græðlingar hafa náð slíkri stærð að þeir sprengdu utan af sér pottinn og þurftu að leita annað, og má þar nefna Kvennakór Reykjavíkur,Tangófélag Íslands og Sirkus Íslands. Aðrir eiga áfram sitt heimili og rætur í Kramhúsinu.

Kramhúsið er þó fyrst og fremst staður fyrir venjulegt fólk sem vill hreyfa sig á skemmtilegan og skapandi hátt sem nærir bæði líkama og sál.

Staðsetning á korti: 

Námskeið á vegum félags

Laugardalur, Háaleiti og Bústaðir, Miðborg og Hlíðar, Vesturbær